Enski boltinn

Mancini lætur Hart heyra það

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Klaufagangur Joe Hart í öðru marki Southampton í gær
Klaufagangur Joe Hart í öðru marki Southampton í gær Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City lét Joe Hart markvörð sinn fá það óþvegið í fjölmiðlum á Englandi eftir 3-1 tap Manchester City gegn Southampton í gær.

Joe Hart gerði klaufaleg mistök í öðru mark Southampton þegar hann missti skot Rickie Lambert milli fóta sér sem varð til þess að Steven Davis kom Southampton í 2-0.

Hart hefur einnig verið gagnrýndur fyrir þátt sinn í fyrsta marki Southampton þegar hann náði ekki að hreinsa í aðdraganda marksins sem Jason Puncheon skoraði á 9. mínútu.

Joe Hart hefur gert fjölda mistaka á tímabilinu og Mancini hefur fengið nóg.

„Joe hefur gert of mörg mistök. Hann hefur ekki verið nógu góður,“ sagði Mancini.

„Þetta voru virkilega slæm mistök hjá Joe. Þetta var ekki nógu gott. Þetta kemur ekki á óvart því hann hefur gert nokkur á tímabilinu,“ sagði Ítalinn við stjórnvölinn hjá City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×