Enski boltinn

Ferguson skorar á framherja sína að skora 25 mörk hver | hótar hárblásaranum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos\Getty
Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta hefur skorað á framherja sína Wayne Rooney, Robin van Persie og Javier Hernandez að skora að minnsta kosti 25 mörk hver á tímabilinu í von um að framherjarnir leiði liðið að 20. meistaratitli félagsins.

Allir sóknarmennirnir þrír hafa skorað mikið á tímabilinu. Rooney hefur skorað fimm mörk í fimm síðustu leikjum sínum og alls 13 mörk á tímabilinu.

Van Persie hefur nú þegar skorað 22 mörk á tímabilinu og Hernandez hefur skorað 14 mörk þrátt fyrir að leika minna en félagar sínir á tímabilinu.

„Ef van Persie, Hernandez og Rooney ná 25 mörkum hver þá verðum við í góðri stöðu til að landa titlum. Þetta gengur vel og stefnir allt í rétta átt," sagði Ferguson um gengi framherja sinna á tímabilinu.

Manchester United getur náð 12 stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið mætir Everton klukkan 16 í dag á Stöð 2 Sport 2.

„Við töpuðum titlinum í síðasta leiknum á síðasta tímabili. Ég get sagt að það mun ekki gerast aftur - ef það gerist, orðum það svona, þá munu þeir finna fyrir hárblásaranum á fullum styrk," sagði Ferguson glettinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×