Enski boltinn

Mancini mun gera breytingar á City-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, var allt annað en ánægður með liðið sitt í 1-3 tapinu á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Ítalski stjórinn hefur hótað því að henda nokkrum stjörnuleikmönnum út úr liðinu sínu fyrir næsta leik.

Mancini sagði leikmenn sína ekki hafa verið reiðubúna að berjast fyrir sigrinum í leiknum á móti Southampton.

„Ég er viss um að það breytist núna því ég mun gera breytingar á liðinu í næstu viku," sagði Roberto Mancini en Manchester City mætir Leeds United í ensku bikarkeppninni um næstu helgi.

„Ég vil bara hafa leikmenn í mínu liði sem eru til búnir að berjast fyrir liðið í þeim tólf leikjum sem eru eftir. Ég er mjög reiður út í fullt af mínum leikmönnum því það er algjörlega óásættanlega að liðið spili eins og það gerði á laugardaginn," sagði Mancini.

Maninci nefndi engin nöfn en hann tók Samir Nasri af velli eftir 55 mínútur og bæði Gareth Barry og Joe Hart gerðu sig seka um slæm mistök. Fleiri leikmenn voru líka langt frá sínu besta.

„Við spiluðum ekki fótbolta í þessum leik. Þetta var versti leikur liðsins í tvö eða þrjú ár. Leikmennirnir voru skelfilegir, kraftlausir og sýndu engan persónuleika inn á vellinum," sagði Roberto Mancini harðorður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×