Enski boltinn

Liverpool slegið í rot á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
West Brom vann ótrúlegan 2-0 sigur á Liverpool í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Bæði mörk leiksins komu á síðustu tíu mínútum leiksins.

Liverpool hafði framan af talsverða yfirburði í leiknum en Ben Foster, markvörður West Brom, átti stórleik og sýndi mörg lagleg tilþrif.

En á 77. mínútu fékk Liverpool umdeilda vítaspyrnu sem var dæmd á Jonas Olsson fyrir brot á Luis Suarez. Steven Gerrard tók spyrnuna en Foster kórónaði frábæran leik með því að verja frá honum.

Stuttu síðar hélt West Brom í sókn sem lauk með því að Youssouf Mulumbu skaut að marki. Pepe Reina varði naumlega í horn en þetta var fyrsta marktilraun West Brom í leiknum.

West Brom fékk horn og náði Gareth McAuley að skalla knöttinn í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu Chris Brunt.

Gestirnir náðu svo að strá salt í sár heimamanna er Romelu Lukaku skoraði eftir skyndisókn. Lukaku kom sér í gott færi með því að fara illa með Daniel Agger, varnarmann Liverpool.

West Brom vann því báðar deildarleiki sína gegn Liverpool þetta tímabilið en liðið hafði ekki unnið leik síðan í lok desember síðstliðins. West Brom er í áttunda sæti með 37 stig en Liverpool í níunda sæti með 36 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×