Enski boltinn

Innkast Arons skilaði marki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff. Nordic Photos / Getty Images
Frazier Campbell skoraði bæði mörk Cardiff í 2-1 sigri liðsins á Bristol City í ensku B-deildinni í dag.

Campbell var keyptur á aðeins 650 þúsund pund frá Sunderland í síðasta mánuði og skoraði strax í sínum fyrsta leik með félaginu. Hann hefur nú skorað þrjú mörk í jafn mörgum leikjum en þetta var hans fyrsti leikur á heimavelli Cardiff.

Síðari markið skoraði hann með laglegu skoti eftir að hafa fengið langt innkast frá Aroni Einari Gunnarssyni, sem spilaði allan leikinn í dag. Heiðar Helguson kom inn á sem varamaður fyrir Campbell á 72. mínútu.

Cardiff er með tíu stiga forystu á toppi deildarinnar og á þar að auki leik til góða á næsta lið, sem er Hull. Með þessu áframhaldi virðist fátt ætla að koma í veg fyrir að liðið tryggi sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með vorinu.

Cardiff hefur nú spilað níu deildarleiki í röð án þess að tapa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×