Enski boltinn

Björn Bergmann með sitt fyrsta mark á árinu 2013

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Björn Bergmann Sigurðarson skoraði sitt fyrsta mark í tvo og hálfan mánuð þegar hann kom Úlfunum yfir snemma leik í ensku b-deildinni í kvöld. Það dugði samt ekki því bæði Íslendingaliðin í b-deild enska boltans töpuðu leikjum sínum í kvöld. Kári Árnason og félagar í Rotherham unnu hinsvegar góðan útisigur.

Wolves tapaði 1-2 á útivelli á móti Barnsley. Björn Bergmann kom Wolves í 1-0 eftir aðeins rétt rúmlega sex mínútna leik þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Bakary Sako.

Chris Dagnall jafnaði fyrir Barnsley eftir aðeins þriggja mínútna leik í seinni hálfleik og Jacob Mellis skoraði síðan sigurmark Barnsley á 73. mínútu. Björn Bergmann var tekinn af velli á 84. mínútu.

Þetta var fyrsta mark Björns Bergmann síðan að hann skoraði í 4-1 sigri á Bristol City 1. desember en síðan var hann búinn að spila átta deildarleiki í röð án þess að skora. Björn Bergmann hefur nú skorað 4 mörk í 24 leikjum í ensku b-deildinni á þessu tímabili.

Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Cardiff City þegar liðið tapaði 0-2 á heimavelli á móti Brighton. Aron Einar spilaði allan leikinn og Heiðar Helgason spilaði síðustu sex mínúturnar. Mörk Brighton & Hove Albion komu á 43. og 90. mínútu. Cardiff City er þrátt fyrir tapið með fimm stiga forskot á toppi ensku b-deildarinnar.

Kári Árnason og félagar í Rotherham unnu 2-1 útisigur á Bristol Rovers í ensku d-deildinni og spilaði Kári allan leikinn. Mörk Rotherham komu með tveggja mínútna millibili um miðjan seinni hálfleik en Bristol Rovers minnkaði muninn níu mínútum fyrir leikslok. Sigurinn skilaði Rotherham United liðinu upp í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×