Fótbolti

Kolbeinn átti ekki að spila í gærkvöldi en skoraði tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson skoraði tvö mörk á fimmtán mínútum í fyrsta leik sínum með Ajax í fimm mánuði þegar liðið vann 4-0 bikarsigur á Vitesse í gærkvöldi. Frank de Boer, þjálfari Ajax, ætlaði aldrei að nota hann í leiknum og Kolbeinn átti ekki að spila fyrsta leik sinn eftir meiðslin fyrr en á sunnudaginn.

„Ég kom bara inn í liðið af því að Eyong Enoh datt út," sagði Kolbeinn í viðtali við Voetball International. Kamerúnmaðurinn Eyong Enoh var farinn til London til að ganga frá félagsskiptum sínum í Fulham og því kom Kolbeinn óvænt inn í hópinn.

„Ég var alveg klár og bjóst við að fá að spila en ég vissi ekki bara í hve langan tíma," sagði Kolbeinn sem kom inn á 75. mínútu í stöðunni 2-0 fyrir Ajax.

„Það var frábær tilfinning að skora tvö mörk og strákarnir tóku mér mjög vel," sagði Kolbeinn. Hann skoraði fyrsta markið sitt þegar hann tók frákast eftir vítaklúður félaga síns Lasse Schöne.

„Auðvitað vildi ég fá að taka vítið," sagði Kolbeinn sem fiskaði vítið sjálfur. Íslenski landsliðsframherjinn skoraði seinna markið sitt með laglegum skalla. Kolbeinn sagði líka við VI að hann fyndi ekki lengur fyrir neinum óþægindum í öxlinni sem eru mjög góðar fréttir.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum hér fyrir neðan.











Mynd/Nordic Photos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×