Enski boltinn

Hodgson: Ashley Cole spilar hundraðasta landsleikinn á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole og Roy Hodgson.
Ashley Cole og Roy Hodgson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englendinga, staðfesti það á blaðamannafundi í dag að Ashley Cole verði í byrjunarliðinu á móti Brasilíu á Wembley á morgun. Þar með er ljóst að Chelsea-bakvörðurinn spilar sinn hundraðasta landsleik annað kvöld.

„Ashley verður pottþétt í byrjunarliðinu. Við eigum hinsvegar eftir að ákveða hvar við notum Leighton Baines í leiknum," sagði Roy Hodgson.

Ashley Cole lék sinn fyrsta landsleik á móti Albaníu í mars 2001 en hann verður sjöundi maðurinn til að spila hundrað landsleiki fyrir England. Steven Gerrard lék sinn hundraðasta leik á móti Svíum í nóvember síðastliðinn.

„Ashley lætur verkin tala inn á vellinum og ég hef ekki orðið var við það að hann sækist eftir því að bera fyrirliðabandið í hundraðasta leiknum. Ég tel að hann sé bara ánægður með að vera í stóru hlutverki í liðinu og er nokkuð öruggur með það að hann ætli ekki að reyna að rífa fyrirliðabandið af Steven. Ef hann gerir það þá er mér að mæta," sagði Roy Hodgson í léttum tón.

Leikur Englands og Brasilíu verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×