Innlent

Aurskriða sleit niður rafmagnslínur

Heimir Már Pétursson skrifar
Þriðja aurskriðan féll í nótt milli Húsavíkur og Akureyrar.
Þriðja aurskriðan féll í nótt milli Húsavíkur og Akureyrar.

Um 250 metra breið aurskriða féll á þjóðveginn við bæinn Ystafell í Kaldakinn um klukkan tvö í nótt og er þjóðvegurinn lokaður af þeim sökum. Gunnar Bóarsson yfirverkstjóri vegagerðarinnar á Húsavík segir að skriðan hafi verið öflug og höggvið um 30 metra skarð í veginn og farið um 250 metra vestur yfir þjóðveginn. Hann segir að skriðan sé um einn metri á hæð.

Skriðan tók með sér hluta af raflínum og eru einhverjir bæjir á svæðinu rafmagnslausir vegna þess. Starfsmenn Rariks vinna að bráðabirgðaviðgerð en bændur með kýr þurfa á rafmagni að halda til að mjólka. Þjóðvegur 85 er því lokaður á milli Húsavíkur og Akureyrar og er vegfarendum bent á að fara um Fljótsheiði og Aðaldalsveg.

Gunnar segir að leysingar að undanförnu hafi komið skriðunni af stað en þetta er þriðja aurskriðan á stuttum tíma á þessum stað. Í gær var allt að 19 gráðu hiti á svæðinu. Fyrsta skriðan var mjög öflug og tók með sér um átta þúsund trjáplöntur og segir Gunnar að skriðan í nótt hafi flett upp gróðursvæði á sömu slóðum. Ekki sé óhætt að vera á svæðinu en Vegagerðarmenn muni kanna aðsræður með morgninum. Ljóst sé að vegurinn verði lokaður eitthvað fram eftir degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×