Innlent

Nýs útvarpsstjóra bíða mikil verkefni

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/GVA
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra segir ákvörðun Páls Magnússonar að hætta sem útvarpsstjóri hafa verið skiljanlega í ljósi aðstæðna. Næsta útvarpsstjóra bíði mikil verkefni.

„Það hefur komið fram hjá útvarpsstjóra að hann meti það svo að hann njóti ekki nægilegs trausts stjórnarinnar og í ljósi þess þá er þessi ákvörðun skiljanleg,“ segir Illugi í samtali við Vísi.

„Ég vil um leið nota þetta tækifæri og þakka Páli Magnússyni fyrir hans störf. Það má ljóst vera að það er ekki auðvelt verkefni að stýra Ríkisútvarpinu og ég tala nú ekki um á tímum niðurskurðar eins og hefur verið á undanförnum árum, en þessi staða er komin upp og við henni þurfti að bregðast.“

Illugi segir að nýs útvarpsstjóra, ásamt stjórn RÚV, bíði mikil verkefni. „Ég er þess fullviss að Ríkisútvarpið er í öllum færum til þess að sinna sínu lögboðna hlutverki af myndaskap. Það er þó ljóst að það þarf að hlusta eftir þeirri umræðu sem hefur verið í samfélaginu undanfarnar vikur, sem hafa meðal annars snúið að þeim áherslum birtast með þeim uppsögnum sem hafa orðið hjá stofnuninni.“

„Það hefur kallað fram mikil viðbrögð og nýs útvarpsstjóra bíður meðal annars að leggja mat á það. Einnig að, í samráði við stjórn Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytið á grundvelli þjónustusamnings,  að móta stefnu og áherslur RÚV. Það má segja að það séu verkefnin framundan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×