Innlent

Páll Magnússon hættur hjá RÚV

Samúel Karl Ólason skrifar
Páll Magnússon er hættur sem útvarpsstjóri RÚV. Hann tilkynnti þetta til starfsmanna RÚV rétt í þessu.

Í tilkynningunni segir hann ástæðuna vera að Páll telur sig ekki njóta nægilegs trausts í stjórn Ríkisútvarpsins til að gegna stöðunni áfram með árangursríkum hætti á erfiðum tímum.

Öll tilkynningin er hér að neðan:

Góðir samstarfsmenn!

Ég hef ákveðið í samráði við stjórnarformann Ríkisútvarpsins að láta af starfi mínu sem útvarpsstjóri frá og með deginum í dag.

Ástæðan er sú að ég tel mig ekki njóta nægilegs trausts í stjórn Ríkisútvarpsins til að gegna stöðunni áfram með árangursríkum hætti á erfiðum tímum.

Þrátt fyrir illnauðsynlegar niðurskurðaraðgerðir fyrir skemmstu skil ég stoltur við Ríkisútvarpið á þessari stundu. Samkvæmt öllum þeim mælikvörðum sem við notum til að meta stöðu RÚV hefur hún sjaldan verið sterkari en nú.  Það gildir jafnt um almennt viðhorf þjóðarinnar til RÚV, traust á stofnuninni samanborið við aðrar stofnanir samfélagsins, traust á fréttastofu RÚV samanborið við aðra fjölmiðla, vinsældir meðal þjóðarinnar mældar í áhorfi og hlustun og loks rekstrarstöðu félagsins. Innan tíðar verður kynnt uppgjör síðasta rekstrarárs sem skilar jákvæðri niðurstöðu í samræmi við áætlanir. Þar með hefur náðst það markmið að skila síðustu fjórum rekstrarárum Ríkisútvarpsins samanlögðum réttu megin við núllið.

En allt um það , - traustið er ekki fyrir hendi og því hljóta leiðir að skilja.

Af hjartans einlægni þakka ég öllum þeim sem ég hef unnið með hjá Ríkisútvarpinu síðustu átta árin fyrir árangursríkt og ánægjulegt samstarf. Saman hefur okkur tekist að sigla Ríkisútvarpinu í gegnum bankahrun, niðurskurðaraðgerðir og almennan trúnaðarbrest í samfélaginu - með rekstur, traust og vinsældir í góðu horfi. Það var ekki sjálfgefið.

Ég óska ykkur öllum og Ríkisútvarpinu gæfu og gengis í framtíðinni.

Kær kveðja,

Páll Magnússon


Tengdar fréttir

Heimurinn fylgist með RÚV

Ísland er menningarþjóð. Við undirrituð vitum þetta vel af eigin reynslu. Við erum tónlistarfólk frá ýmsum löndum: hljómsveitarstjórar, hljóðfæraleikarar, söngkona og tónskáld.

Þétt setið á samstöðufundi RÚV í Háskólabíó

Samstöðufundur um Ríkisútvarpið fór fram í Háskólabíói í kvöld og var aðalsalurinn þétt setinn. Yfirskrift fundarins var "Okkar Ríkisútvarp“ en ástæðan fyrir fundinum var mikill niðurskurður sem RÚV hefur þurft að taka á sig en 39 starfsmönnum var sagt upp störfum í síðustu viku hjá stofnuninni. Uppsagnir gætu síðan orðið fleiri í kjölfarið.

Hvernig Ríkisútvarp?

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2014 er boðaður niðurskurður á mörkuðum tekjustofni Ríkisútvarpsins og að hluti hans verði notaður til annarra verkefna ríkissjóðs. Afleiðingarnar hafa komið í ljós í uppsögnum fjölda starfsmanna og eðlilega hafa vaknað spurningar um forgangsröðun í þeim aðgerðum og um hlutverk Ríkisútvarpsins

„Ég væri ekki leikari án RÚV“

Hópur leiðandi lista- og fræðafólks tjáir sig í nýju myndskeiði um mikilvægi menningar- og fræðsluhlutverks Ríkisútvarpsins.

„Þetta var erfiður fundur“

"Þetta var erfiður fundur enda erfiðar aðgerðir,“ sagði Páll Magnússon útvarpsstjóri stuttu eftir að tilfinningaþrungnum fundi lauk í Útvarpshúsinu í dag.

Menningin á Rás 1 aukin en ekki eytt

Niðurskurðurinn á RÚV og "rústun“ Rásar 1 hefur verið mál málanna í umræðunni undanfarið. Magnús R. Einarsson, starfandi dagskrárstjóri útvarpsins, varpar ljósi á málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×