Enski boltinn

Gerrard stefnir á fullkominn lokasprett

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, hefur enn trú á því að liðið geti tryggt sér eitt af fimm efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar þetta tímabilið.

Liverpool komst upp í sjötta sæti deildarinnar með 3-2 sigri á Tottenham um helgina en það var fyrsta tap síðarnefnda liðsins í deildinni síðan í desember.

Liverpool hefur nú unnið þrjá leiki í röð og Gerrard telur að liðið sé nú komið á nægilega gott skrið til að gera atlögu að efstu fimm sætunum. Fjögur efstu tryggja þátttökurétt í Meistaradeildinni og fimmta sætið í Evrópudeild UEFA.

„Við höfum engan áhuga á afsökunum. Við erum þar sem við erum og þurfum að taka ábyrgð á því. Liverpool á ekki heima í sjöunda, áttunda eða níunda sæti deildarinnar. Við viljum berjast um Evrópusæti á hverju einasta ári," sagði Gerrard við enska fjölmiðla.

„Þetta hefur verið furðulegt tímabil því við stöndum okkur yfirleitt vel gegn sterkari liðum deildarinnar en misstígum okkur gegn liðum úr neðri hlutanum. En nú höfum við verið að klára lakari liðin en ekki fengið þau stig sem við þurfum gegn sterkari liðunum."

„Markmiðið er eitt af fimm efstu sætunum. Við verðum að standa okkur vel og sjá hvernig aðrir leikir fara. Vonandi munu liðin fyrir ofan okkur misstíga sig eitthvað."

Liverpool er með 45 stig og er tveimur stigum á eftir Arsenal. Chelsea er svo í fjórða sætinu með 52 stig en bæði lið eiga leik til góða á Liverpool.

Erkifjendurnir og grannarnir í Everton eru einnig með 45 stig en eiga leik til góða. „Við þurfum að sýna hvað við getum í öllum þeim leikjum sem við eigum eftir. Við viljum enda fyrir ofan Everton og eins ofarlega og við getum," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×