Innlent

Giftingarhringur morðingja Bandaríkjaforseta á uppboð

Heimir Már Pétursson skrifar
Lee Harvey Oswald leiddur til yfirheyrslu.
Lee Harvey Oswald leiddur til yfirheyrslu.
Gifftingarhringur sem var í eigu  Lee Harvey Oswald sem myrti John F. Kennedy Bandaríkjaforseta í Dallas í Texas hinn 22. nóvember árið 1963, verður boðinn upp á uppboði sem fram fer í Boston í október ásamt ýmsum örðum gripum sem tengjast Kennedy. Hringurinn hafði verið í geymslu í peningaskáp hjá lögfræðifyrirtækinu Brackett og Ellis í Forth Worth frá því hann myrti forsetann.

Lögfræðistofan afhenti ekkju Oswalds, Mirina Oswald-Porter hringinn nýverið.

Með hringnum verður boðið upp bréf frá henni þar sem hún greinir frá því að hringurinn hafi verið keyptur í Minsk í Hvíta Rússlandi árið 1961. En um er að ræða 14 karata gullhring og er grafin hamar og sigð inn í hringinn, sem talinn er vera eini persónulegi munur Oswalds sem afhentur var ekkjunni eftir að Oswald var sjálfur myrtur af Jack Ruby tveimur dögum eftir að Oswald myrti forsetann. 

Þá greinir hún frá því að Oswald hafi tekið hringinn af sér að morgni dagsins þegar hann myrti Kennedy og skilið hann eftir hjá konu að nafni Ruth Paine. Í bréfinu segir ekkjan einnig að 22. nóvember 1963 hafi verið versti dagur ævi hennar.

Búist er við að á bilinu 3,6 til sex milljónir króna fáist fyrir hringinn og bréfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×