Enski boltinn

Suarez til í að skoða tilboð frá Meistaradeildarliðum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Luis Suarez hefur farið á kostum í framlínu Liverpool á þessu tímabili og er eins og er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 22 mörk. Þrátt fyrir frábæra spilamennsku Úrúgvæmannsins á Liverpool litla sem enga möguleika á að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Suarez gæti því verið á förum í sumar ef marka má viðtal við hann í Liverpool Echo.

„Ég er mjög ánægður hjá Liverpool en þú veist aldrei hvernig málin þróast í fótbolta. Ég hef minn metnað og hann er að spila fyrir eitt af bestu liðunum. Ég er í heimsklassaliði í dag og við verðum að átta okkur á því að nýr stjóri er að innleiða sína fótboltahugsjón. Við leikmenn liðsins verðum að aðlagast og vonandi uppskerum við síðan á næsta tímabili," sagði Luis Suarez við Liverpool Echo..

„Ef annað lið hefur áhuga á mér, lið sem getur boðið upp á meiri möguleika á að spila í Evrópukeppni, þá er ég til í að skoða allt. Við yrðum að ræða við klúbbinn og sjá síðan til hvort ég sé til í að fara," sagði Suarez.

Luis Suarez viðurkenndi líka í viðtalinu að hann hafi nokkrum sinnum valdið sjálfum sér vonbrigðum með framkomu sinni inn á vellinum.

„Mín leið til að spila fótbolti er skrýtin og öðruvísi en hjá flestum. Ég er samt minn harðasti gagnrýnandi og geri mér alveg grein fyrir því að ég hef gert mín mistök. Ég hef samt bætt mig og ætla að reyna að halda því áfram," sagði Suarez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×