Enski boltinn

Wenger óttaðist um hinn ökklann á Wilshere

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jack Wilshere var frá keppni í sextán mánuði vegna meiðsla á ökkla og því vildi Arsene Wenger ekki taka neina áhættu þegar álíka meiðsli komu upp.

Wilshere fékk álagsbrot á ökkla sumarið 2011 og fór í aðgerð um haustið. Hann sneri ekki aftur á völlinn fyrr en í október síðastliðnum.

Hann verður ekki með Arsenal gegn Bayern München í kvöld og Wenger, stjóri Arsenal, greindi frá því að hann yrði frá í þrjár vikur.

„Undir venjulegum kringumstæðum hefði hann ef til vill getað spilað með okkur í kvöld. En miðað við hans sögu var það ekki þess virði að taka þá áhættu," sagði Wenger.

Wenger segir að í fyrri meiðslunum hafi beinmar orðið að álagsbroti í ökklanum. Síðan hann byrjaði að spila á ný hafa báðir ökklar verið myndaðir einu sinni í mánuði og kom nýverið í ljós beinmar á hinum ökklanum.

„Hann bólgnaði upp í hægri ökklanum, þar sem hann meiddist upphaflega, og bætti upp fyrir það með því að hlífa honum. Það setti of mikinn þrýsting á vinstri ökklann," sagði Wenger við enska fjölmiðla.

„Vonandi missir hann af bara einum leik í ensku úrvalsdeildinni því eftir leikinn um helgina verður gert landsleikjafrí í deildinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×