Erlent

Höfuðpaurar glæpagengis fyrir dómara í Kaupmannahöfn

Rétt á eftir verður tekin fyrir í dómi í Kaupmannahöfn beiðni lögreglunnar um gæsluvarðhald yfir 11 félögum í glæpagenginu LTF sem handteknir voru í borginni í gær.

LTF er skammstöfun fyrir Loyal To Faimilia en þetta glæpagengi hefur á skömmum tíma orðið eitt af þeim stærstu í Kaupmannahöfn og nágrenni.

Í kjarna gengisins er m.a. hin alræmda Blågårdsklíka frá Vesturbrú sem barðist lengi af mikilli hörku við Hells Angels um fíkniefnamarkað borgarinnar í uppúr síðustu aldamótum. Svipað og hjá Blågårdsklíkunni eru langflestir meðlimir LTF nýbúar.

Mikill fjöldi lögreglumanna frá þremur umdæmum ásamt sérsveitinni Task Force Öst réðust inn í 42 íbúðir og hús í Kaupmannahöfn snemma í gærmorgun. Um var að ræða hýbýli eða íverustaði gengisins. Tugir manna voru handteknir og hald lagt á skammbyssu, skotfæri og eitthvað af fíkniefnum.

Lögreglan telur að þeir sem hún vill fá í gæsluvarðhald séu helstu höfuðpaurar Loyal To Familia. Þeir verða ákærðir fyrir morðtilraun, alvarlegar líkamsárásir, vopnuð rán og fjárkúganir auk nokkurra minni glæpa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×