Lífið

Ný ilmvatnsmenning á Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Lísa Ólafsdóttir, eigandi Madison Ilmhús, boðar nýja ilmvatnsmenningu á Íslandi.
Lísa Ólafsdóttir, eigandi Madison Ilmhús, boðar nýja ilmvatnsmenningu á Íslandi. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Við viljum breyta ilmvatnsmenningunni hér á landi,“ segir Lísa Ólafsdóttir, eigandi Madison Ilmhús, sem opnar nýja verslun í Aðalstræti 9 undir lok vikunnar. Madison Ilmhús er ný ilmvatnsverslun með vörur og merki sem fæst hafa verið til sölu á Íslandi áður.

Þar verða engin ilmvötn frá stóru ilmvatnskeðjunum, hvorki á lægri enda skalans líkt og ilmvötn merkt söngkonunum Christinu Aguilera og Britney Spears, eða hærri enda hans líkt og frá tískuhúsunum Prada og Chanel. Einungis verða vörur frá smærri framleiðendum, sem líta ekki á ilmvatnsgerð sem iðnað heldur listgrein og telja að ilmvatnsmeistarinn sé listamaður.

„Við viljum gera ilmvatnskaupin að meiri og persónulegri fjárfestingu, að þetta sé í raun eins og að kaupa sér listaverk. Það er auðvitað persónulegt hvernig fólk upplifir þetta en við viljum að fólk taki sér tíma í að velja sér ilm,“ segir Lísa um stefnu verslunarinnar.

Í versluninni verða svokölluð Artistic perfumes í boði, sem eru gæðailmvötn frá framleiðendum sem eiga það sameiginlegt að telja að ilmvatnsgerð sé listgrein og að ilmvatnsmeistarinn sé listamaður sem á að fá að tjá sig. Þróunin á iðnaðarilmvörum hefur verið að búa til ilm sem fellur sem flestum í geð og eru vörurnar seldar í umhverfi þar sem áreitið er mikið, því er ilmurinn hannaður þannig að hann á að grípa kaupandann strax við fyrstu prufu.

Madison er verslun fyrir alla, og þótt vörurnar sem þar fást séu framleiddar af listrænum metnaði og oft í mjög takmörkuðu magni þýðir það ekki að þær séu dýrari en fjöldaframleidd ilmvötn.

Í versluninni verða vörur frá fjölmörgum framleiðendum frá öllum heimshornum. Auk ilmvatna verður úrval af snyrtivörum, kremi og öðrum húðvörum sem framleiddar eru samkvæmt sömu hugmyndafræði og ilmvötnin. Þá verður einnig snyrtistofa í versluninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.