Enski boltinn

Villas-Boas: Þurfum að gera betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, segir að sínir menn geti betur en þeir hafa sýnt að undanförnu. Liðið tapaði 1-0 fyrir Fulham í dag og hefur tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum.

„Við viljum gera betur. Við spiluðum tólf leiki í röð án taps og það kom okkur í góða stöðu," sagði Villas-Boas en Tottenham féll niður í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tapinu í dag.

„Það er erfitt að sætta sig við þrjú töp í röð en við verðum að finna leið úr þessum ógöngum. Við eigum mikilvæga leiki fram undan, til dæmis gegn Manchester City og Chelsea."

Tottenham mætti Inter á Ítalíu á fimmtudagskvöldið í Evrópudeild UEFA. Framlengja þurfti leikinn en Tottenham komst engu að síður áfram í fjórðungsúrslit keppninnar.

„Ég vil ekki skrifa þetta þreytu. Við spiluðum einfaldlega ekki eins vel og við höfum verið að gera á heimavelli að undanförnu. Við sköpuðum fá færi og eftir að Fulham skoraði náðu þeir að loka sínum svæðum mjög vel. Það gerði okkur mjög erfitt fyrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×