Enski boltinn

Benítez: Terry í vítahring

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry sat á bekknum í gær.
John Terry sat á bekknum í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, þurfti að horfa á enn einn leikinn í gær þegar Chelsea vann 1-0 sigur á Sparta Prag í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Chelsea, er ekki alltof bjartsýnn á framhaldið hjá Terry.

John Terry meiddist á hné þegar Liverpool-maðurinn Luis Suárez lenti á því í leik Chelsea og Liverpool Stamford Bridge 11. nóvember síðastliðinn og Terry hefur síðan aðeins náð því að spila þrjá leiki með Chelsea-liðinu.

„Í síðustu viku kom smá afturkippur en hann var í góðu lagi þegar hann æfði með okkur í þessari viku. Við verðum að fylgjast áfram vel með honum. Hann verður samt að ná því að æfa meira með liðinu til að fá fleiri tækifæri til að spila í leikjunum." sagði Rafael Benítez.

„Þetta er vítahringur. Ef hann getur ekki spilað þá kemst hann ekki í meiri leikæfingu. Ef hann getur ekki æft með liðinu þá er hann ekki í nógu góðu formi. Við höldum áfram að fylgjast með honum en í millitíðinni eru þeir [Gary] Cahill og [Branislav] Ivanovic að standa sig vel og við erum að vinna okkar leiki," sagði Benítez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×