Lífið

Hleypur til styrktar endómetríósu

Freyr Bjarnason skrifar
Kári Steinn Karlsson, Ester Ýr Jónsdóttir og Bjarki Jónsson ætla að hlaupa til styrktar Samtökum um endómetríósu.
Kári Steinn Karlsson, Ester Ýr Jónsdóttir og Bjarki Jónsson ætla að hlaupa til styrktar Samtökum um endómetríósu. fréttablaðið/valli
Kári Steinn Karlsson ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 24. ágúst ásamt tveimur frændsystkinum sínum, þeim Ester Ýri og Bjarka Jónsbörnum.

Þau þrjú ætla að hlaupa til styrktar Samtökum um endómetríósu en Ester Ýr hefur greinst með þennan arfgenga sjúkdóm, auk þess sem önnur frænka Kára Steins hefur einnig greinst með hann.

„Ég var einfaldlega beðinn um þetta. Ég vissi ekki hvað þetta var, hafði aldrei heyrt um þetta áður en fannst þetta flott málefni,“ segir Kári Steinn, spurður hvers vegna hann ákvað að hlaupa fyrir samtökin. Hann keppti í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í fyrra. „Ég held að almenningur viti ekkert svakalega mikið um þennan sjúkdóm. Ég get vonandi safnað einhverjum peningum fyrir þetta málefni og vakið athygli á því í leiðinni.“

Aðspurður segist Kári Steinn ætla að láta sér nægja að hlaupa hálfmaraþon í þetta skiptið en vonast til að hlaupa heilt Reykjavíkurmaraþon síðar. „Ég hef aldrei hlaupið heilt maraþon á Íslandi og bara hlaupið þrjú maraþon. Maður fer sparlega með þau því þau taka sinn toll af líkamanum.“

Ester Ýr ætlar að hlaupa tíu kílómetra og býst ekki við því að ná að halda í við frænda sinn. „Það liggur við að þetta sé í fyrsta sinn sem ég tek þátt í einhverju hlaupi. Mér finnst mjög mikilvægt að opna umræðuna um þennan sjúkdóm, sem er kannski oft svolítið feimnismál. Margir halda að þetta séu eingöngu slæmir túrverkir en þetta er svo miklu meira en það,“ segir hún.

Til marks um það hefur Ester farið í þrjár skurðaðgerðir vegna endómetríósu og fjórar misheppnaðar glasameðferðir. „Markmiðið er að klára hlaupið. Ég yrði hrikalega ánægð með það.“

Bróðir hennar Bjarki tekur einnig þátt en hann hefur verið duglegur að vekja athygli á endómetríósu á Facebook að undanförnu. „Ég er mjög ánægð með að sjá að svona ungir strákar séu tilbúnir að vekja athygli á svona málefni,“ segir Ester um Bjarka og Kára Stein.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.