Fótbolti

Aron skoraði í þriðja leiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aron Jóhannsson hélt uppteknum hætti með AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar hann skoraði fyrsta markið í 2-1 útisigri á RKC Waalwijk. Aron hefur nú skorað í þremur fyrstu deildarleikjum tímabilsins.

Aron Jóhannsson lék sinn fyrsta landsleik með Bandaríkjunum í vikunni þegar hann kom inná sem varamaður í 4-3 sigri á Bosníumönnum í Sarajevo. Hann getur því aldrei spilað fyrir íslenska A-landsliðið.

Aron skoraði markið sitt strax á 4. mínútu leiksins. Aron var í byrjunarliðinu eins og íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson. Aron var tekinn af velli á 73. mínútu en Jóhann Berg fór útaf mínútu fyrr.

Jean-David Beauguel jafnaði metin eftir að Íslendingarnir voru farnir af velli en Belginn Maarten Martens, sem kom inná fyrir Jóhann Berg, skoraði sigurmark AZ sex mínútum fyrir leokslok.

AZ Alkmaar hefur náð í sex stig af níu mögulegum í þessum þremur fyrstu umferðum og Aron er markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt þeim Alfreð Finnbogasyni, Zakaria Bakkali (PSV) og Georginio Wijnaldum (PSV).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×