Innlent

Símar og önnur verðmæti eyðilögðust í rútunni

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Eins og sést fór rútan, sem er frá Kynnisferðum, ansi djúpt.
Eins og sést fór rútan, sem er frá Kynnisferðum, ansi djúpt.

„Þetta var bara ótrúlega krípí og ógnvænlegt. Við vorum að deyja úr hræðslu,“ segir Snædís Sunna Thorlacius, nemandi í Garðaskóla. Hún var í rútu sem var fyrir aftan rútuna sem festist í Krossá fyrr í dag og sá greinilega hvað fram fór. „Krakkarnir sem voru í rútunni sem festist voru bara skjálfandi á beinunum, þau voru bara bókstaflega á hlið í vatninu.“

Eins og Vísir greindi frá flæddi inn í rútuna þar sem farangur og nesti barnanna urðu gjörsamlega gegnsósa. Snædís Sunna segir líklegt að töluvert eignatjón hafi orðið. „Það skemmdist Samsung Galaxy sími hjá einum strák og svo veit ég um tölvu, iPad hátalara, myndavélar og fleira sem blotnaði og eyðilagðist.“

Rútan var svo dregin upp úr.

Bíll frá Hjálparsveit skáta í Garðabæ er lagður af stað til Reykjavíkur með blauta farangurinn, þar sem foreldrar taka við dótinu og senda nýjan farangur og nesti til barnanna í Þórsmörk.

Snædís segir krakkana þó ætla að njóta þess sem eftir er af ferðalaginu. „Það eru einhverjir blautir og svekktir en við erum bara að hjálpast að og koma okkur fyrir. Það verður að minnsta kosti gaman að segja frá þessu í framtíðinni, þetta fer í lífsreynslubankann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×