Innlent

Rauðhærðasti Íslendingurinn í skýjunum: "Mér finnst þetta æðislegt"

Boði Logason skrifar
Hafdís var útnefnd rauðhærðasti Íslendingurinn á Írskum dögum á Akranesi um helgina.
Hafdís var útnefnd rauðhærðasti Íslendingurinn á Írskum dögum á Akranesi um helgina. Mynd/365
Rauðhærðasti Íslendingurinn árið 2013 segist vera himinlifandi með titilinn sem hún hlaut í gær á Írskum dögum á Akranesi.

Á hverju ári er keppt um rauðhærðasta Íslendinginn á hátíðinni. Í ár voru tíu keppendur um titilinn og var keppnin hörð. Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, krýndi sigurvegarann og var það hin þrítuga Hafdís Karlsdóttir sem sigraði.

Það er óhætt að segja að Hafdís hafi verið í góðu skapi þegar fréttastofa heyrði í henni eftir hádegi í dag.

„Mér finnst þetta æðislegt, ég geng bara út um allt og segi öllum að ég sé rauðhærðasti Íslendingurinn," segir hún.

Hún segist alla tíð hafa verið stolt af hárlitnum sínum, og því hafi verið kærkomið að fá titilinn sá rauðhærðasti á landinu.

„Manni var strítt svolítið þegar maður var yngri vegna þess að maður var rauðhærður, en síðan þegar maður var kominn í menntaskóla þá fór fólk bara öfunda mann. Fólk er alltaf að segja: Þú ert með svo fallegt hár - Og núna er það orðið þannig þegar fólk er að hrósa hárinu mínu þá segi ég: Já, ég veit það," segir hún.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hún tekur þátt í keppninni því hún tók einnig þátt fyrir tveimur árum. En hvað ætli hún hafi gert fyrir hárið á sér síðan þá?

„Núna var ég fallegri grænni peysu sem hún tengdamamma mín prjónaði fyrir mig, ég held að hún hafi átt eitthvað í sigrinum."

Og hún fór ekki tómhent heim og fékk verðlaun í takt við titilinn.

„Ég fékk ferð fyrir tvo til Írlands. Núna fer maður og finnur írsku ræturnar,“ segir hún hress að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×