Innlent

Fangelsisdómur yfir byssuræningjum

Elimar Hauksson skrifar
Mennirnir huldu andlit sitt þegar þeir mættu í Héraðsdóm Reykjavíkur
Mennirnir huldu andlit sitt þegar þeir mættu í Héraðsdóm Reykjavíkur mynd/vilhelm
Þrír menn voru í dag sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir rán, frelsissviptingu og hylmingu.



Tveim mannanna, sem fæddir eru árið 1993, var gefið að sök að hafa ruðst inn á heimili karlmanns á sjötugsaldri, á heimili hans í Grafarvogi, veitt honum hnefahögg og ógnað með hníf.

Þeir hafi síðan sparkað í líkama hans, fjötrað á höndum og fótum og neytt hann til að afhenda sér lykil að skotvopnaskáp í íbúðinni. Því næst hafi þeir rænt átta skotvopnum sem geymd voru á heimili hans og haft þau á brott með sér auk skotfæra.

20 grömm af amfetamíni, tveir rifflar, fimm haglabyssur og kindabyssa fundust við húsleit hjá unnustu þriðja mannsins í Hafnarfirði og í kjölfarið voru mennirnir handteknir.

Mennirnir voru dæmdir í 18 og 16 mánaða fangelsi en sá þriðji hlaut sex mánaða dóm fyrir aðild sína. Ragnheiður Harðardóttir kvað upp dóm yfir mönnunum en í öllum tilvikum kom gæsluvarðhald til frádráttar refsingu.

Dómur yfir mönnunum var kveðinn upp rétt eftir hádegimynd/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×