Innlent

Húsafriðunarnefnd vill friðlýsa Nasa

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Páll Gunnlaugsson arkitekt, segir að alltaf hafi staðið til að hafa salinn áfram í upprunalegri mynd.
Páll Gunnlaugsson arkitekt, segir að alltaf hafi staðið til að hafa salinn áfram í upprunalegri mynd. mynd/365
Húsafriðunarnefnd styður tillögu Minjastofnunar Íslands um að friðlýsa skuli tónlistarsalinn Nasa.

Páll Gunnlaugsson, arkitekt hjá ASK arkitektum og einn höfundur deiliskipulagsins á Nasa-reitnum, segir að það hafi alltaf staðið til að byggja salinn upp í svipaðri mynd og í dag. Þar verði sama svið og svalirnar á hliðunum haldi sér líka.

Páll segir að þessar innréttingar sem verið sé að friðlýsa séu í raun og veru ekki til. Í dag séu bara gegnsósa teppi og spónaplötubar í salnum. Upprunalegu innréttingarnar frá því að salurinn var byggður fyrir miðja síðustu öld, séu ekki lengur til staðar.

Græna húsið við Thorvaldsenstræti 2 er friðlýst og segir Páll að það eigi ekki að hagga við því. En nú sé farið að ræða um að friða bakhúsið, sem salurinn er í. Það hús sé frekar ómerkileg bygging og í raun algjört bráðabirgðahúsnæði. Byggingin sé hlaðin úr holsteini og sé með stálgrindaþaki. Slík hús eigi ekki að friða inni í miðri borg.

Páll segir að það sé frekar að friða salinn og umfang salarins eins og gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu og til standi að gera. 

Páll segir furðulegt að húsafriðundarnefnd skuli gera ályktun núna sem sé algjörlega í andstöðu við fyrri ályktun nefndarinnar frá 2012.

Málið hafi alla tíð verið unnið í samráði við nefndina og Minjasafn Reykjavíkur. Það hafi verið haldin stór alþjóðleg samkeppni um hönnun svæðisins og allt ferlið hafi verið unnið í samráði við þessa aðila.

„Það er núna á lokametrunum að það koma nýir einstaklingar inn í húsafriðundarnefnd, þá er bara skipt um skoðun sem er algjörlega óviðunandi,“ segir Páll.

Hann minnist á að 18 þúsund manns hafi skrifað undir mótmælaskjal undir heitinu: Björgum Ingólfstorgi og Nasa. Í kjölfar undirskriftanna hafi verið fallið frá því að byggja á Ingólfstorgi og þannig megi segja að  mótmælin hafi í raun bjargað Ingólfstorgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×