Innlent

Milljarður í girðingar

Svavar Hávarðsson skrifar
Fréttablaðið/Vilhelm
Vegagerðin hefur á síðustu fimm árum varið tæpum milljarði í girðingar og viðhald þeirra við vegi landsins.

Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Í svari ráðherra kemur fram að á árunum 2008-2012 hefur Vegagerðin kostað 320 kílómetra af girðingum með eldri vegum og á sama tíma hafa komið fram óskir um 300 kílómetra af girðingum til viðbótar. Til þess að uppfylla fyrirliggjandi óskir um nýjar girðingar má áætla að þurfi um 350 milljónir króna.

Samkvæmt reglugerð um girðingar meðfram vegum ber Vegagerðinni að „girða báðum megin vegar sem lagður er gegnum tún, ræktarland, engjar eða girt beitiland“, enda er vegurinn lagður í gegnum land í einkaeigu. Viðhaldskostnaður girðinga meðfram stofn- og tengivegum greiðist að jöfnu af Vegagerðinni og landeiganda.

Í ályktun á Búnaðarþingi 2013 er bent á að víða sé misbrestur á að viðhaldi girðinga meðfram vegum sé sinnt. Nauðsynlegt sé að bæta úr því og leiðin til þess sé að landeigendur, sveitarfélög og Vegagerðin efli samstarf um veggirðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×