Innlent

40 prósent Reykvíkinga ánægðir með ákvörðun Jóns Gnarr

mynd/GVA
Nærri fjörutíu prósent kjósenda í Reykjavík eru ánægðir með að Jón Gnarr ætli ekki að bjóða sig fram í næstu sveitastjórnarkosningum á meðan þriðjungur er ósáttur við ákvörðun borgarstjórans. Björt framtíð fengi svipað fylgi og Besti flokkurinn ef gengið yrði til kosninga nú.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var dagana 30. og 31.október. Þar var fólk meðal annars beðið um að taka afstöðu um brotthvarf Jóns Gnarr úr stjórnmálum. Fólk var spurt hvort það væri ánægt eða óánægt með þá ákvörðun Jóns að vera ekki í framboði í komandi sveitastjórnarkosningum. Nærri fjörtíu prósent aðspurðra segjast annaðhvort mjög eða frekar með þá ákvörðun á meðan um 31 prósent er mjög eða frekar óánægt. Þrjátíu prósent eru hvorki ánægðir né óánægðir.





Það kemur ekki á óvart að minnst er ánægjan með brotthvarf Jóns á meðal stuðningsmanna Bjartrar framtíðar. Ríflega helmingur þeirra er óánægður. Að sama skapi ríkir töluverð ánægja með ákvörðun Jóns hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum. Fleir á meðal Samfylkingarfólks er ánægt en óánægt á meðan Vinstri grænir skiptast nokkuð jafnt.

Jón er greinilega vinsælli á meðal yngri kjósenda í Reykjavík heldur en hjá þeim sem eldri eru. Óánægja ríkir á meðal fjörtíu prósent þeirra sem eru á aldrinum 18 til 49 ára á meðan um helmingur þeirra sem eru eldri en fimmtíu ára eru mjög eða frekar ánægðir með að Jón verði ekki aftur í framboði.





Samkvæmt könnuninni breytist pólitíska landslagið í borginni lítið í kjölfar tilkynningar Jóns Gnarr. Besti flokkurinn verður innlimaður í Bjarta Framtíð og ef gengið yrði til kosninga nú fengi Björt framtíð svipað fylgi og Besti flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn fengi örlítið meira fylgi á meðan Sjálfstæðisflokkurinn tapar stuðningi. Samfylkingin og Vinstri grænir halda nokkurn veginn sínu frá kosningunum 2010. Skipting borgarfulltrúa héldist óbreytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×