Innlent

Eitt naut enn úti í haga eftir nautaat í Skagafirði

Mynd frá nautaatinu á þriðjudaginn.
Mynd frá nautaatinu á þriðjudaginn. Mynd / fbsv.123.is
„Við náðum ekki síðasta nautinu," segir einn smalinn sem lenti í nautaati í Steinstaðahverfi, skammt frá Varmahlíð í Skagafirði, í fyrradag. Hann naut liðsinnis fjögurra björgunarsveitarmanna Flugbjörgunarsveitarinnar í Varmahlíð. Alls voru þeir sex við smalamennskuna.

Sjö naut sluppu frá bænum á þriðjudaginn. Aðspurður segir smalinn ekkert sérstakt hafa orðið til þess að nautin flúðu. „Líklega hefur þeim bara leiðst," segir hann í samtali við Vísi.

Það er ekkert smámál að smala nautum aftur í fjósið eins og kom í ljós þennan dag. Vel gekk að koma sex nautum í skjól, en það sjöunda ætlaði ekki að gefast svo glatt upp.

„Það snéri við og byrjaði á því að vaða í einn sleðann," lýsir smalinn þegar nautið brást hið versta við tilraunum smalans og björgunarsveitarmannanna.

Eftir klukkutíma baráttu við að lokka nautið aftur í hús gáfust björgunarsveitarmennirnir og bóndinn upp. Nautið er enn út í haga og nýtur frelsisins.

Þegar fréttamaður spurði hvort önnur tilraun yrði gerð til þess að koma böndum á nautið svarar smalinn: „Nei. Líklega verður það bara skotið. Enda komið á aldur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×