Íslenski boltinn

Sársaukinn gleymist í hita leiksins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þessi mynd var tekin af Úlfari eftir leik og eins og sjá má er lítið eftir af tönninni.
Þessi mynd var tekin af Úlfari eftir leik og eins og sjá má er lítið eftir af tönninni.
Valsmaðurinn Úlfar Hrafn Pálsson sýndi af sér fádæma hörku í leik Vals og Keflavíkur á fimmtudag. Önnur framtönnin brotnaði þá en hann gaf sjúkraþjálfaranum tönnina og hélt áfram að spila.

„Ég held það hafi verið Bojan Stefán sem var að sparka í burtu og þá sveiflaðist höndin á honum í andlitið á mér. Ég fékk hnefann bara í andlitið. Þetta var örugglega óviljandi hjá honum. Rúmlega helmingurinn af tönninni fór af," sagði Úlfar en hann varð að fara af velli til að fá aðhlynningu.

„Þetta var frekar vont. Ég fann frekar mikið fyrir þessu. Maður lætur það ekki stoppa sig. Sjúkraþjálfarinn tók tönnina fyrir mig og ég hélt svo áfram."

Um 20 mínútum síðar var sársaukinn orðinn of mikill og Úlfar varð að fara af velli.

„Ég sagði þá við þjálfarann að ég væri ekki alveg heill í hausnum. Ég var kominn með hausverk út af verknum í tönninni og þá verður maður pirraður. Ég var líka á gulu spjaldi og því var skynsamlegt að fara af velli. Ég gleymdi samt sársaukanum til að byrja með í hita leiksins."

Það var strax farið í að ræða við tannlækna og Úlfar hitti einn slíkan á golfvellinum í Hafnarfirði. Sá skoðaði hann og sagði honum að mæta til sín daginn eftir. Úlfar varð því að bryðja verkjatöflur fyrir nóttina og bíða.

„Nóttin var ekkert frábær en ég svaf þetta af mér. Það er búið að líma tönnina á og verið að athuga hvort það dugar. Ef ekki þarf ég líklega að fá nýja tönn. Ég vona það besta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×