Íslenski boltinn

Fylkir samdi við írskan varnarmann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis.
Írski varnarmaðurinn David Elebert gekk í dag til liðs við Fylki eftir að hafa staðist læknisskoðun nú síðdegis. Hann er 26 ára varnarmaður sem býr yfir talsverðri reynslu úr skosku úrvalsdeildinni.

Þetta staðfesti Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis, í samtali við Vísi en Elebert hefur æft með liðinu síðustu daga og tók þátt í æfingaleik gegn Breiðabliki á þriðjudaginn.

"Þetta er öflugur varnarmaður sem okkur veitir ekki af þar sem það eru talsverð meiðsli í okkar herbúðum," sagði Ásmundur við Vísi.

"Hann kemur líka með mikla reynslu inn í liðið. Þessi strákur var í öllum yngri landsliðum Írlands og stundum fyrirliði. Þetta er því mikið leiðtogaefni."

Þórir Hannesson er nú frá vegna meiðsla og verður því Elebert ætlað að fylla í hans skarð í vörn Fylkis, fyrst um sinn að minnsta kosti.

Elebert var á mála hjá enska liðinu Preston North End sem unglingur en gekk í raðir Hamilton í Skotlandi árið 2006, þá 20 ára gamall. Hann á samtals að baki 135 leiki með liðinu og skoraði í þeim átta mörk.

Hann var laus undan samningi sínum við félagið síðastliðið vor og var við það að ganga til liðs við Ayr United í haust þegar hann meiddist. Elebert lék með öllum yngri landsliðum Írlands og var um tíma fyrirliði U-21 landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×