Fótbolti

Sara Björk: Við vorum betri og áttum meira skilið

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar hennar í íslenska kvennalandsliðinu þurftu að sætta sig við sárgrætilegt tap á móti Noregi í undankeppni EM í kvöld. Íslenska liðið kemst því ekki beint á EM en þarf að treysta á umspilið til að tryggja farseðilinn á EM í Svíþjóð.

„Við lögðum allt í þetta en við fengum tvö klaufaleg mörk á okkur í fyrri hálfleiknum. Við förum inn í hálfleik frekar svekktar en mér fannst við koma sterkar inn í seinni hálfleik. Við reyndum að sækja iog sækja en náðum bara ekki þessu eina marki sem vantaði upp á. Við reyndum eins mikið og við gátum en þetta féll ekki með okkur," sagði Sara Björk.

„Það munaði ekki miklu hjá okkur en svona er fótboltinn. Solveig Gulbrandsen breytti vissulega miklu fyrir þær en mér er samt nákvæmlega sama hver er inn á hjá þeim. Mér fannst við betri og við áttum þetta meira skilið. Við lögðum okkur miklu meira fram en þetta féll ekki með okkur og við þurfum því að taka umspilið," sagði Sara.

Íslenska liðið fær að vita í lok vikunnar hvaða þjóð verður mótherji liðsins í tveimur umspilsleikjum í október.

„Það er verið að tala um að þetta verði Úkraína, Austurríki eða Skotland. Það skiptir engu máli hvaða lið við fáum því við munum taka hvaða lið sem er. Við förum bara sömu leið og inn á síðasta Evrópumót og klárum bara umspilið," sagði Sara Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×