Innlent

„Þið mynduð skilja Gretti betur en ég“

Ásamt því að læra nútíma-íslensku situr hann nú námskeið í Gísla sögu Súrssonar enda ekki annað hægt á meðan á Vestfjarðadvölinni stendur.
Ásamt því að læra nútíma-íslensku situr hann nú námskeið í Gísla sögu Súrssonar enda ekki annað hægt á meðan á Vestfjarðadvölinni stendur. mynd/björn Ingi Guðnason
Svissneskur íslenskunemi er farinn að skilja okkar ylhýra mál eftir þriggja vikna nám. Hann hafði reyndar nokkuð forskot því hann kann forníslensku. Hann myndi hins vegar hóa í Íslending ef Grettir Ásmundarson kæmi að spjalla.

Silvio Zinsstag hefur lært forníslensku og lesið Íslendingasögurnar á frummálinu. Hann situr nú á skólabekk í Háskólasetri Vestfjarða og lærir nútíma-íslensku.

Svarið kom blaðamanni á óvart þegar hann spurði af hverju Svisslendingur tæki sig til og lærði forníslensku.

„Það var bara mjög hagkvæmt fyrir mig. Já, já,“ bætir hann við þegar hann verður þess var að blaðamaður er orðlaus.

„Ég var að læra fornensku í Englandi og þá kom alltaf einhver tenging við rit sem voru á forníslensku. Menn voru því sífellt að tala um þau en enginn var fær um að lesa þau svo það er mjög hagkvæmt fyrir mig að getað lesið frumheimildirnar. Til dæmis eru atriði í Bjólfskviðu sem einnig koma fyrir í Grettissögu.“

Þar með hefur talið borist að uppáhalds Íslendingasögu Zinsstag. „Grettir er svo heillandi sögupersóna,“ segir hann. „Grettir er persóna sem menn hrífast af en um leið vekur hann hjá manni ugg. Hann gat verið tilfinninganæmur, hann var til dæmis skáldhneigður en svo á hann sér óslípaðri hliðar eins og alþjóð veit.“

En þá vaknar spurningin, ef Grettir stykki nú fram með málfar síns tíma á munni, hvor myndi skilja hann betur: Íslendingur sem einungis talar nútímaíslensku eða Zinsstag, sem menntað hefur sig í forníslensku? „Þið ættuð að skilja hann betur. Til dæmis er mikið af íslenskum orðsamböndum, fyrr og nú, sem þið berið meira skynbragð á en einhver sem lært hefur einungis af bókinni.“

Zinsstag hefur einungis lært nútímaíslensku í þrjár vikur en segist þó farinn að skilja Íslendingana að mestu. „Það er að segja ef talað er hægar en sem nemur tólf tungusnúningum á sekúndu,“ segir hann kankvís. „En ég á erfiðara með það að tala. Þar kemur málfræðivitund mín sér illa en meðan ég tala hef ég allar málfræðireglurnar í hausnum svo mér vefst tunga um tönn.“

Zinsstag er einnig tónlistarmaður og þegar hann er spurður að því hvernig hann hyggist nýta sína forníslensku lætur hann lítið uppi en þó ætti það ekki að koma á óvart ef við heyrum í svissneskum tónlistarmanni í framtíðinni flytja tónverk þar sem okkar ylhýra kemur við sögu.jse@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×