Innlent

Lögregla hafði aðrar áherslur við eftirlitið

BBI skrifar
Mynd/Óskar P.
Lögreglan í Vestmannaeyjum hafði aðrar áherslur en áður við eftirlitsstarf sitt á Þjóðhátíð yfir helgina. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Eyjum, segir að það sé alla vega ein af ástæðum þess að fleiri fíkniefnamál komu upp í ár en nokkurntíma áður á hátíðinni.

„Núna lögðum við meiri áherslu en áður á að hafa afskipti af eins mörgum og mögulegt var miðað við þann mannskap sem við höfðum," segir Jóhannes. Uppskeran var góð vegna dugnaðar starfsliðsins að mati hans, en alls komu 52 fíkniefnamál upp.

„Þetta er bara það sem við viljum. Við viljum ekki að menn vaði hérna óáreittir með fíkniefni á þessari hátíð," segir Jóhannes.

Hann getur ekki lagt mat á það hvort raunverulega hafi verið meira af fíkniefnum á hátíðinni en áður. „En það er alla vega nóg af þessu í umferð miðað við útihátíðir sumarsins," segir hann.

Lögreglan var með þrjá hunda á svæðinu, gekk milli tjalda, fór á skemmti- og veitingastaði í bænum og hélt uppi eftirliti við komu fólks til eyjanna. Allt í allt voru um 25 lögreglumenn voru á vakt yfir helgina á svæðinu.


Tengdar fréttir

Þrjár nauðganir, tvær alvarlegar líkamsárásir og aldrei fleiri fíkniefnamál

Þrjár nauðganir eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir Þjóðhátíðina sem lauk í gærkvöldi. Konurnar sem hafa kært kynferðisbrotin eru 17 ára, 18 ára og 27 ára. Nauðganirnar áttu sér allar stað inni í Herjólfsdal. Aldrei hafa fleiri fíkniefnamál komið upp á Þjóðhátíð og tvær alvarlegar líkamsárásarkærur liggja á borði lögreglu eftir helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×