Íslenski boltinn

Hélt oftar hreinu í ár en síðustu ár til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson fagnar með félögum sínum í FH eftir lokaleikinn á móti Val.
Gunnleifur Gunnleifsson fagnar með félögum sínum í FH eftir lokaleikinn á móti Val. fréttablaðið/Daníel
Gunnleifur Gunnleifsson tók við Íslandsmeistarabikarnum á laugardaginn og það mátti sjá á viðbrögðum hans þegar titillinn var í höfn tveimur vikum fyrr að þar fór maður sem var búinn að bíða lengi eftir því að komast í tæri við þann stóra.

Gunnleifur kom í FH fyrir tímabilið 2010 þegar FH-ingar voru búnir að vinna tvo Íslandsmeistaratitla í röð og fimm titla á sex árum. Gunnleifur leysti þá af Daða Lárusson, sem var búinn að vera aðalmarkvörður FH-liðins í níu sumur.

Gunnleifur hafði árin á undan staðið sig frábærlega með liði HK og verið einn af lykilmönnunum í að koma liðinu upp í deild þeirra bestu. Nú var komið að því að spila með einum af stórum klúbbunum. Það gekk þó ekki allt eins og í sögu. FH-liðið þurfti að sætta sig við silfur tvö fyrstu ár Gunnleifs í Krikanum en hann fékk fyrirliðabandið í vor og þá kom sá stóri.

Gunnleifur talaði sjálfur um að hann hefði verið að vinna sinn fyrsta alvöru Íslandsmeistaratitil, en hann á einnig verðlaunapening frá árinu 1999 þegar hann var varamarkvörður Kristjáns Finnbogasonar hjá KR og fékk að spila lokaleik mótsins þegar titillinn var í höfn.

Gunnleifur hélt marki sínu samtals níu sinnum hreinu fyrstu tvö tímabil sín með FH en gerði einu betur í sumar. Gunnleifur hélt marki sínu nefnilega tíu sinnum hreinu í Pepsi-deildinni í ár og allir þeir leikir voru fyrir þá eftirminnilegu stund á Stjörnuvellinum 16. september síðastliðinn þegar FH-liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

Gunnleifur er sá markvörður sem hélt oftast marki sínu hreinu á tímabilinu, en næstur kom Eyjamaðurinn Abel Dhaira sem náði því í átta leikjum. FH-ingar unnu sex af leikjum sínum 1-0 og þessi 18 stig vógu þungt í að liðið tók titilinn af KR-ingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×