Innlent

Fádæma úrkomusöm haustbyrjun

Rafmagnslínur á Norðurlandi slitnuðu í september vegna ísingar og rafmagn fór af í kjölfarið á stóru svæði. Fréttablaðið/Egill Aðalsteinsson
Rafmagnslínur á Norðurlandi slitnuðu í september vegna ísingar og rafmagn fór af í kjölfarið á stóru svæði. Fréttablaðið/Egill Aðalsteinsson
Síðasti mánuður var úrkomusamasti september víða á Norðurlandi síðan mælingar hófust. Fádæma úrkomusamt var víða um landið norðanvert og úrkoma var vel ofan meðallags á flestum stöðvum, er fram kemur í samantekt Veðurstofu Íslands á tíðarfari septembermánaðar.

Á Akureyri var meira en þreföld meðalúrkoma, en meira hefur einungis mælst einu sinni í september og var það árið 1946.

Óvenjumikið hríðarveður og fannfergi gerði á Norðurlandi dagana 9. til 11. september. Raflínur slitnuðu, þúsundir fjár týndust í snjónum og rafmagn fór af í fleiri sólarhringa á sumum svæðum. Enginn bóndi í Þingeyjasýslum sem Fréttablaðið hefur rætt við man eftir slíku tíðarfari áður. Mikil ísing fylgdi veðrinu sem gerði aðstæður óvenjuslæmar.

Úrkoma í Reykjavík var rúmlega helmingi meiri en í meðalári, en hún mældist síðast meiri árið 2008.

Fyrstu níu mánuðir ársins voru einnig óvenjuhlýir. Í Reykjavík hefur meðalhiti tímabilsins aðeins sex sinnum verið hærri en í ár. Þá hefur einungis tvisvar sinnum orðið hlýrra í Stykkishólmi frá 1845 og var það 2003 og 2010. Á Akureyri hefur fimm sinnum orðið hlýrra, síðast 2004.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×