Innlent

Landbúnaðarstefnan óskilvirk

Meirihluti styrkja til landbúnaðar á Íslandi er bundinn framleiðslumagni og því markaðstruflandi, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Í nýlegri skýrslu stofnunarinnar um stuðning við landbúnað í aðildarríkjunum segir að 70% af landbúnaðarstyrkjum á Íslandi séu af þessum toga, þótt beingreiðslur í sauðfjárbúskap og kvótakerfið í mjólkurframleiðslu séu til bóta.

Í skýrslunni segir að íslensk stjórnvöld verði að draga úr stuðningi við landbúnaðinn og jafnframt halda áfram að þróa „skilvirkari og betur samhangandi stefnu“. Sú stefna ætti að hafa skýr markmið, meðal annars umhverfisvernd, minni truflanir á framleiðslu og viðskiptum og betri varðveislu náttúruauðlinda.

Ken Ash, yfirmaður viðskipta- og landbúnaðarmála hjá OECD, segir í skýrslunni að stuðningur við landbúnað eigi að beinast í auknum mæli að því að auka framleiðni og samkeppnishæfni í greininni og fá meira fyrir peninga skattgreiðenda. „Ríkisstjórnir í fjárþröng, sem eru að skera niður ýmsa þætti fjárlaganna, munu neyðast til að bæta skilvirkni landbúnaðarstefnunnar,“ segir Ash.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×