Erlent

Segir SÞ styðja hryðjuverkalið

Walid Al Moallem utanríkisráðherra Sýrlands er ósáttur við afskipti af innanríkismálum. nordicphotos/AFP
Walid Al Moallem utanríkisráðherra Sýrlands er ósáttur við afskipti af innanríkismálum. nordicphotos/AFP
Walid al Moallem, utanríkisráðherra Sýrlands, segir að enginn friður geti orðið í Sýrlandi fyrr en nágrannalöndin hætti að styðja hryðjuverkamenn.

Jafnframt segist hann furðu lostinn yfir því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, sem hafa undanfarin ár háð stríð gegn hryðjuverkum, skuli nú styðja hryðjuverkamenn gegn sýrlensku stjórninni, og krefjast þess að Bashar al Assad Sýrlandsforseti láti af embætti.

„Þetta eru blygðunarlaus afskipti af sýrlenskum innanríkismálum,“ segir Moallem.

Í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, segir hins vegar Mokhtar Lamani, sem er fulltrúi friðarsendinefndar Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins í Sýrlandi, að eitt stærsta vandamálið, sem stendur í vegi fyrir því að hægt sé að semja um frið í Sýrlandi, sé hversu sundraðir hópar uppreisnarmanna eru. Þeir eigi erfitt með að koma sér saman um samningsafstöðu gagnvart sýrlensku stjórninni vegna þess að ekki ríkir traust á milli þeirra sjálfra innbyrðis.

Harðir bardagar geisa í landinu. Árás stjórnarhersins á þorp í norðanverðu Sýrlandi kostaði yfir tuttugu manns lífið í gær. Þá hafa gríðarlegar skemmdir orðið á gömlum markaðstorgum í höfuðborginni Damaskus.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×