Innlent

Þegar er unnið út frá nýrri auðlindastefnu

Fundur auðlindastefnunefndar í ágúst í fyrra Skýrsla auðlindastefnunefndar verður kynnt í dag, mánudag. Þegar hefur verið hrint í framkvæmd ýmsum tilmælum úr skýrslunni. Fréttablaðið/GVA
Fundur auðlindastefnunefndar í ágúst í fyrra Skýrsla auðlindastefnunefndar verður kynnt í dag, mánudag. Þegar hefur verið hrint í framkvæmd ýmsum tilmælum úr skýrslunni. Fréttablaðið/GVA
Þegar er hafin frumvarpsgerð innan ráðuneyta um hvernig auðlindastefna stjórnvalda verður innleidd. Stefnan liggur nú fyrir en Auðlindastefnunefnd skilar lokaskýrslu sinni í dag. Horfið er frá stofnun Auðlindasjóðs, tímabundið, en í þess stað verður stofnaður Auðlindareikningur sem hefur með höndum að ráðstafa auðlindaarði á sýnilegan hátt.

Vinna Auðlindanefndar hefur frá skipun snúist um hvernig handhafar sérleyfa eru valdir, til hve langs tíma leyfin gilda og hvernig mögulegum umframarði, auðlindarentu, er skipt milli sérleyfishafa og þjóðarinnar. Búið er að byggja upp rannsóknir og ráðgjöf vegna ákvarðana um verndun og nýtingu auðlinda auk eftirlits.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er unnið að stofnun miðstöðvar auðlindaumsýslu í fjármálaráðuneytinu, en það er gerlegt án lagasetningar, og er innan ráðuneytisins unnið að frumvarpi um fjárreiðulög þar sem auðlindareikningur kemur fram.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er hafin vinna við að skoða nýtingartíma orku- og vatnsauðlindarinnar. Auðlindastefnan snertir beint lengd nýtingarsamninga í nýjum lögum um stjórn fiskveiða, svo dæmi sé tekið. Er ekki annað að skilja en mælt sé með styttri nýtingarsamningum en rætt hefur verið um til þessa.

Í skýrslunni, sem í raun markar auðlindastefnu stjórnvalda, er ekki gert ráð fyrir sjóðssöfnun í Auðlindasjóð, heldur að arðinum verði strax ráðstafað með sýnilegum hætti í verkefni og málaflokka af fjárveitingavaldinu. Unninn verður auðlindareikningur þar sem birtar verða tekjur þjóðarinnar af auðlindum sínum, sem eru í eigu eða í umsjón ríkisins. Gert er ráð fyrir að auðlindareikningurinn verði hluti ríkisreiknings og fjárlaga og birtur sérstaklega með fjárlagafrumvarpi hvers árs ásamt greinargerð.

Auðlindasjóðurinn, sem lengi hefur verið í umræðunni, gæti þó komið til ef arður myndast af auðlind eins og olíu á Drekasvæðinu. Þá er mælt með að frumkvæði verði haft að stofnun sjóðs sem farið yrði með í anda líkra erlendra sjóða. Er norski olíusjóðurinn sérstaklega nefndur.

Auðlindastefnunefnd ályktar að ákvæði um ævarandi þjóðareign á auðlindum verði sett í stjórnarskrá Íslands. svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×