Innlent

Nauðgunarrannsókn sigld í strand

Stúlkunni var nauðgað árla á mánudagsmorgni.
Stúlkunni var nauðgað árla á mánudagsmorgni. Mynd/óskar p. Friðriksson
Rannsókn lögreglunnar á Selfossi á nauðgun á Þjóðhátíð í Eyjum er svo gott sem sigld í strand eftir að lögreglunni var neitað um upplýsingar um farsímanotendur í Vestmannaeyjum. Þetta segir Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

„Það bremsaði okkur svolítið af að fá ekki að vinna úr þessum upplýsingum,“ segir Þorgrímur Óli. Lögreglan fór fram á að símafyrirtækin létu henni í té upplýsingar um alla sem talað hefðu í síma í Vestmannaeyjum á tilteknu tíu mínútna bili.

Ástæðan var sú að á myndskeiði frá Þjóðhátíð sást maður tala í síma skömmu eftir að ólögráða stúlku var nauðgað, og honum svipaði til lýsingarinnar á gerandanum. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að símafyrirtækjunum væri óheimilt að afhenda upplýsingarnar.

„Þetta var kannski síðasta hálmstráið, í þessari umferð allavega. Það eina sem við stólum á núna er að það berist einhverjar upplýsingar. En þetta er eins og eldfjall – það er farið að kulna,“ segir Þorgrímur Óli.

Því lengra sem líði frá verknaðinum þeim mun ólíklegra verði að málið leysist. Rannsókn á tveimur öðrum nauðgunarmálum sem komu upp á Þjóðhátíð er vel á veg komin. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×