Innlent

Fleiri læra um sjávarútveg

Þór Sigfússon
Þór Sigfússon
Aðsókn í námsgreinar tengdar sjávarútvegi hefur aukist merkjanlega á síðustu misserum. Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, segir þetta jákvæð tíðindi.

„Við sjáum vaxandi áhuga meðal ungs fólks. Í öllum helstu skólunum sem hafa boðið upp á námsgreinar tengdar hafinu er töluverð aukning í aðsókn fyrir haustið sem eru mjög jákvæð tíðindi,“ segir Þór.

„Undanfarið hefur einnig verið meiri umfjöllun en oft áður um tækifærin í sjávarútvegi og öllum greinum klasans, til dæmis líftækninni, matvælafræðinni, fiskeldinu og öðru. Það hefur örugglega haft sitt að segja,“ segir Þór.

Samkvæmt samantekt Íslenska sjávarklasans jókst aðsókn í haftengdar greinar um rösklega 40% á milli áranna 2011 og 2012. Nú stunda á bilinu 1.200 til 1.500 manns nám sem tengist þessu sviði en meðal námsgreina sem voru skoðaðar má nefna sjávarútvegsfræði, skipstjórn, fiskvinnslu og fiskeldi.

Þór segir að fyrirtæki sem tengjast sjávarklasanum hafi á síðustu árum haft áhyggjur af því að ekki væri til nægilega margt fólk menntað á þessum sviðum. „Það er að breytast núna. Við verðum þó að passa okkur á því að þetta verði ekki bara enn ein bólan. Við leggjum því áherslu á að fyrirtækin í greininni fylgi þessu eftir með því að sýna skólunum og nemendum áhuga með því að vera í sambandi við þessa aðila og bjóða þeim upp á verkefni.“- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×