Lífið

Óttaðist að bakmeiðsl kæmu í veg fyrir góðan árangur

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson fagnar heimsmeistaratitli í réttstöðulyftu á Heimsmeistaramóti unglinga sem haldið var í Póllandi.
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson fagnar heimsmeistaratitli í réttstöðulyftu á Heimsmeistaramóti unglinga sem haldið var í Póllandi.
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson hlaut gullverðlaun í réttstöðulyftu í yfirþungavigt á Heimsmeistaramóti unglinga sem haldið var í Póllandi um helgina og setti Íslandsmet unglinga í bekkpressu.

Júlían lyfti 325 kílóum í réttstöðulyftu sem tryggði honum heimsmeistaratitilinn. „Mér líður rosalega vel. Ég bjóst eiginlega ekki við þessu því ég tognaði í mjóbaki á mikilvægum tíma í undirbúningnum fyrir leikana.

En ég stefndi á að ná góðum árangri," sagði Júlían, sem var á flugvelli í London á leið heim til Íslands þegar Fréttablaðið sló á þráðinn.

Júlían er 19 ára gamall og hefur æft kraftlyftingar í fjögur ár hjá kraftlyftingadeild Ármanns.

„Ég var í körfubolta áður fyrr en ákvað að prófa kraftlyftingar, man nú eiginlega ekki af hverju það var. En ég fann mig mjög vel um leið og ég byrjaði að æfa. Held að það sé út af því að maður er alltaf að byggja sig upp og finnur og sér árangurinn jafn óðum."

Júlían keppti í yfirþungavigt sem er flokkur þeirra sem eru þyngri en 120 kíló. „Ég byrjaði auðvitað í léttari flokkum en er nú kominn í minn rétta flokk," segir Júlían sem æfir sjö sinnum í viku að meðaltali, stundum minna og stundum meira.

„Mér gengur bara mjög vel að sameina æfingarnar náminu en ég er á síðasta ári í MH en þar legg ég stund á nám á félagsfræðibraut." Spurður hvort hann viti um fleiri nema í MH sem séu í kraftlyftingum kveður hann nei við.

„Ég held ég sé eini nemandinn í skólanum í þessu. En félagar mínir eru flestir í kraftlyftingum," segir Júlían að lokum.

sigridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.