Lífið

Stjörnurnar syrgja Scott

tony scott Leikstjórinn og framleiðandinn framdi sjálfsvíg með því að stökkva fram af brú í Los Angeles. nordicphotos/getty
tony scott Leikstjórinn og framleiðandinn framdi sjálfsvíg með því að stökkva fram af brú í Los Angeles. nordicphotos/getty
Hollywood-leikstjórinn Tony Scott svipti sig lífi með því að stökkva fram af brú í Los Angeles. Þekktir leikarar og leikstjórar minntust hans í gær.

Sjálfsvíg Tonys Scott hefur komið bæði kvikmyndaáhugamönnum og fólki úr kvikmyndabransanum í opna skjöldu. Hann lést í fyrrakvöld, 68 ára gamall, með því að stökkva fram af brú í Los Angeles.

Nokkrir sjónarvottar voru að sjálfsvíginu. Scott var með nokkur verkefni í vinnslu þegar hann lést. Meðal þeirra tveggja stærstu var sjónvarpsmyndin Killing Lincoln fyrir National Geographic Channel og mynd fyrir aðra sjónvarpsstöð, AMC, um demantaviðskipti.

Einnig var hann að undirbúa framhaldið af Top Gun, sem var hans vinsælasta mynd. Scott kvæntist þrisvar sinnum og átti tvíburasyni með þriðju eiginkonu sinni Donnu Wilson.

„Ekki fleiri myndir frá Tony Scott. Sorgardagur," sagði leikstjórinn Ron Howard um fráfall kollega síns. Annar leikstjóri, Robert Rodriguez, bætti við. „Andskotinn. Það var frábært að kynnast þér vinur. Takk fyrir innblásturinn, ráðin sem ég fékk, hvatninguna og áratugi af frábærri skemmtun."

Leikkonan Keira Knightley, sem lék í mynd hans Domino, sagði: „Tony Scott var einn ótrúlegasti og hugmyndaríkasti maður sem ég hef nokkru sinni unnið með. Það voru forréttindi að fá að starfa með honum."

Bretinn Stephen Fry bætti svo við: „Virkilega sorglegt að heyra fréttirnar af Tony Scott. Flottur kvikmyndagerðarmaður og afar heillandi og hógvær maður."

Auk þess að leikstýra myndum á borð við Top Gun, Beverly Hills Cop II og True Romance var Scott mikilsvirtur framleiðandi.

Til að mynda framleiddi hann Prometheus, sem bróðir hans Ridley leikstýrði. Hún var að hluta til tekin upp á Íslandi á síðasta ári. Undanfarin ár leikstýrði Scott nokkrum myndum með Denzel Washington í aðalhlutverki, þar á meðal Man on Fire og Unstoppable. Síðasta myndin sem hann framleiddi var Out of the Furnace með Christian Bale í aðalhlutverki. Hún kemur út á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.