Lífið

Grillmarkaðurinn með besta borgarann

Blaðamennirnir Byron Wilkes og Haukur S. Magnússon gæða sér á hádegisborgara á Grillmarkaðnum, sem gerir besta borgarann samkvæmt matsnefnd Reykjavík Grapevine.
Blaðamennirnir Byron Wilkes og Haukur S. Magnússon gæða sér á hádegisborgara á Grillmarkaðnum, sem gerir besta borgarann samkvæmt matsnefnd Reykjavík Grapevine. Fréttablaðið/Ernir
„Við erum alveg geigvænlega hrifin af borginni og okkar hlutverk er meðal annars að benda lesendum á hluti sem þeir ættu að prófa,“ segir Haukur S. Magnússon, annar ritstjóri tímaritsins Reykjavík Grapevine, sem gaf út sitt fjórða árlega „Best í Reykjavík“ tölublað á dögunum. Þar hljóta sjötíu staðir og fyrirbæri lof fyrir að vera bestir á sínu sviði.

Í fyrsta sinn frá upphafi listans varð Hamborgarabúlla Tómasar ekki hlutskörpust í flokknum „Besti borgarinn“ en hádegisborgari Grillmarkaðarins þótti bera höfuð og herðar yfir aðra borgara bæjarins.

„Þetta er rosalegur borgari. Ég hef ferðast víða og er mikill áhugamaður um hamborgara en ég held að þessi á Grillmarkaðnum skáki jafnvel góðum amerískum borgurum, frá sjálfu landi hamborgaranna,“ segir hann smjattandi. Snaps varð fyrir valinu sem „Besti veitingastaðurinn, fjandakornið!“ og Faktorý sem „Besti allra handa barinn“. Sundhöllin bættist í hóp stofnana Reykjavíkurborgar samkvæmt blaðinu. Það eru staðir sem hafa sannað ágæti sitt og eru Bæjarins bestu, Kaffibarinn og Ísbúð Vesturbæjar meðal annars á þeim lista.

Haukur segir aðstandendur ánægða með útkomuna. „Listinn er hvergi nærri óskeikull, en endurspeglar hvað stór hópur fólks kann að meta við Reykjavíkurborg og lífið þar.“

Sigurvegararnir voru valdir af tveimur mannmörgum umræðuhópum, út frá ýmsum ábendingum og könnun á Netinu. „Við fengum okkur bara bjór og ræddum við fólk sem hefur reynslu af því að borða úti og sækja þessa staði,“ segir hann.- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.