Íslenski boltinn

Björn Bergmann gæti fært ÍA 50 milljónir króna

Hjörtur Júlíus Hjartarson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Mynd/Heimasíða Lilleström
Knattspyrnudeild ÍA væntir þess að fá á bilinu 12-14 milljónir króna í sinn hlut, verði af sölunni á Birni Bergmann Sigurðarsyni frá norska liðinu Lilleström til Wolves á Englandi.

Kaup Wolves á Birni eru háð því að hann komist í gegnum læknisskoðun um miðjan næsta mánuð en hann mun spila með Lilleström til 13. júlí.

Ofan á þá upphæð leggjast síðan þær 35 milljónir sem Lilleström borgaði fyrir Björn þegar liðið keypti hann frá ÍA 2009.

Samkvæmt reglugerð frá UEFA á ÍA rétt á uppeldisbótum fyrir Björn og af væntanlegu kaupverði er hlutdeild félagsins rétt um tvö prósent. Að auki gerðu ÍA og Lilleström með sér samkomulag á sínum tíma um að ÍA fengi ákveðinn skerf af þeirri upphæð sem Björn yrði seldur á frá Lilleström.

Þegar allt er talið saman gæti Björn Bergmann fært uppeldisfélagi sínu hátt í 50 milljónir króna.

Talið er að Úlfarnir muni borga um 500 milljónir króna fyrir Björn en endanlegt kaupverð hefur ekki verið gefið upp.

Lilleström keypti Björn frá ÍA fyrir 35 milljónir fyrir þremur árum og því ljóst að fjárfesting norska liðsins mun skila dágóðum hagnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×