Innlent

Mýrarnar álitlegar til að reisa vindorkuver

Sænsk vindmylla, sem sett var upp við bæinn Belgsholt í fyrrasumar, framleiddi rafmagn fyrir bæinn auk umframrafmagns sem selt var inn á Landsnetið. Myllan losnaði af mastrinu í vetur og hefur verið unnið að viðgerð.
Sænsk vindmylla, sem sett var upp við bæinn Belgsholt í fyrrasumar, framleiddi rafmagn fyrir bæinn auk umframrafmagns sem selt var inn á Landsnetið. Myllan losnaði af mastrinu í vetur og hefur verið unnið að viðgerð. Mynd/Hannevind.Se
Vinnuhópur í Borgarfirði segir þróun í verði orkugjafa og í umhverfismálum fullt tilefni til að kanna nýtingu vindorku. Þrír staðir í Borgarbyggð eru sagðir koma til greina. Landsvirkjun segir Suðurland þó álitlegast fyrir vindorkuver.

Vinnuhópur um nýtingu vindorku í Borgarbyggð segir fullt tilefni til að kanna hagkvæmni þess að nýta vindorku í sveitarfélaginu.

„Fyrirséð er að kostnaður við nýtingu vindorku fer lækkandi frá því sem var á árum áður og mannvirkin verða sífellt öflugri og betri. Í ljósi hækkandi verðs á orkugjöfum á alþjóðamörkuðum og kröfum alþjóðasamfélagsins um að draga úr bæði staðbundinni loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda er fyrirséð að meiri áhersla verður lögð á umhverfisvænni orkugjafa í framtíðinni,“ segir í niðurstöðu vinnuhópsins sem skipað var í af stjórn Borgarfjarðarstofu í fyrrahaust.

Meðal þess sem vinnuhópurinn gerði var að skoða 30 kílóvatta vindmyllu Haraldar Magnússonar í Belgsholti og ræða við sérfræðinga Landsvirkjunar um áform fyrirtækisins varðandi vindorku. Landsvirkjun hefur þegar gert vindmælingar á nokkrum stöðum og fundið út að Suðurland væri eitt álitlegasta svæðið ásamt svæðunum í kring um vatnsaflsvirkjanirnar við Búrfell og Blöndu. Við fyrrnefndu virkjunina er þegar hafin uppsetning á vindmyllum.

Leitað var til Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings vegna hugsanlegs staðarvals fyrir vindmyllur í Borgarbyggð. Einar benti á fjögur mikilvæg atriði; meðalvindur þyrfti að vera nægur, vindur þyrfti að vera stöðugur, fjarlægð frá flutningskerfi Landsnets mætti ekki vera of mikil og í fjórða lagi þyrfti að huga að hæð vindorkuversins yfir sjávarmáli vegna hættu á ísingu.

Einar nefndi þrjú svæði sem hugsanlega kosti með tilliti til ofangreindra forsendna. Hins vegar er ekki tekið mið af þáttum eins og hljóð- og sjónmengun og áhrifum á fuglalíf. Svæðin eru við Fíflholt á Mýrum, í öðru lagi með farvegi Hvítár og ofan Borgarness og síðan í Norðurárdal upp undir Holtavörðuheiði.

Vinnuhópurinn segir það helst á færi stærri orkufyrirtækja að reisa stærri vindmyllur. Kæmi meðal annars til greina að staðsetja vindmyllu við Andakílsárvirkjun sem Orkuveita Reykjavíkur á. Varðandi minni vindmyllur setji strik í reikninginn að ekki séu þriggja fasa rafmagnslínur um alla Borgarbyggð. Þó sé stefnt að því að svo verði á aðalskipulagi sem gildi til ársins 2022.

„Rekstur stórra vindorkuvera er líklega ekki vænlegur kostur á svæðinu eins og staðan er í dag en ýmsir möguleikar eru á rekstri minni vindorkuvera,“ segir vinnuhópurinn sem segir þörf á meiri undirbúningsvinnu áður en til framkvæmda komi.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×