Innlent

Er að deyja úr tilhlökkun

Sigrún Eðvaldsdóttir æfði konsertinn meðal annars alein í sumarbústað í skammdeginu og á Grænlandi í apríl.
Sigrún Eðvaldsdóttir æfði konsertinn meðal annars alein í sumarbústað í skammdeginu og á Grænlandi í apríl. Fréttablaðið/Vilhelm
Sigrún Eðvaldsdóttir er einleikari á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld í Hörpu í hinum fræga fiðlukonsert númer 1 eftir Sjostakovitsj.

„Þetta leggst alveg rosalega vel í mig. Ég er að deyja úr tilhlökkun," segir Sigrún Eðvaldsdóttir, fiðluleikari sem leikur einn glæsilegasta fiðlukonsert 20. aldarinnar á tónleikum Sinfóníunnar annað kvöld. Það er fiðlukonsert númer 1 eftir Dímítríj Sjostakovitsj. Hún kveðst aldrei hafa spilað hann áður og reyndar hafi hún verið mjög hrædd við hann.

„Þetta ferli var erfitt fyrir mig því hann er svo frægur og stór þessi konsert. Hvenær ég byrjaði að æfa? Þetta er mikil samviskuspurning! Ég byrjaði ábyggilega alltof seint, eins og venjulega – en ég er bara þannig. Ég fór til Kína síðasta sumar og var ekkert mikið að skoða konsertinn þar. Svo kom haustið og ég reyndi að grípa í hann hér og þar. Í desember var ég orðin pínu stressuð og þá pantaði ég mér sumarbústað yfir helgi. Ég varð einhvern veginn að vera ein með konsertinum og það var dálítið gott að vera alein í myrkrinu með Sjostakovitsj – samt sá ekki högg á vatni. Í mars var mér hætt að lítast á blikuna, þá var svo mikið að gera í Tectonics tónlistarhátíðinni í Hörpu. En svo, sem betur fer, varð apríl góður við mig og þá gerðust hlutirnir. Ég fór til Grænlands um páskana að spila með dönskum félögum mínum og maður gæti haldið að það væri óheppilegt fyrir svona ferli en það varð bara svona líka sniðugt fyrir mig, því bæði varð ég fyrir sterkum áhrifum af umhverfinu og svo var ég dugleg að æfa mig meðan félagarnir fóru í siglingar og fleiri skoðunarferðir. Þá fór allt að smella í konsertinum."

Sigrún hlær dátt þegar hún er spurð hvort henni hafi ekki verið kalt á puttunum í Grænlandi. „Ég var með æðislegar lúffur," svarar hún. „Nei, ég hugsaði bara til tónskáldsins því það getur verið svo ofboðslega kalt í Rússlandi á veturna. En nú er vorið komið og það er dásamlegt."

Sigrún kveðst hafa passað sig á að hlusta ekki of mikið á Igor Oistrakh flytja fiðlukonsertinn á æfingaferlinu til að falla ekki í þá gryfju að reyna að herma eftir honum. „Þó er Oistrakh uppáhalds fiðluleikarinn minn og Sjostakowits samdi konsertinn fyrir hann," tekur hún fram. „Tónlist er orðin svo aðgengileg á YouTube og þá fara allir að spila eins. Það er slæm þróun. Mér finnst svo mikilsvert að hver og einn túlki tónverk á sinn hátt. Þannig vil ég gera hlutina."

Tónleikarnir hefjast klukkan 19.30 í Hörpu og auk fiðlukonsertsins verður Sinfónía númer 2 eftir Jean Sibelius á dagskrá, sú vinsælasta af þeim sjö sem hann samdi. Hljómsveitarstjóri er hinn finnski Pietari Inkin sem vakti gríðarlega hrifningu er hann stjórnaði hér á tónleikum 2010. Hann er aðalstjórnandi sinfóníuhljómsveitar Nýja-Sjálands og fékk fjórar stjörnur í Financial Times fyrir túlkun sína á 2. sinfóníu Sibeliusar.

gun@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×