Innlent

Senda þakkir frá Búrkína Fasó

UNICEF á Íslandi barst á dögunum þessi mynd frá starfsfólki samtakanna í Búrkína Fasó. Mynd/UNICEF
UNICEF á Íslandi barst á dögunum þessi mynd frá starfsfólki samtakanna í Búrkína Fasó. Mynd/UNICEF
Hjálparstarf Starfsfólk UNICEF í Búrkína Fasó sendi þakklætiskveðjur til Íslands á dögunum, en söfnun hér á landi til hjálpar nauðstöddum á Sahel-svæðinu hefur gengið afar vel. Um 20 milljónir króna hafa safnast frá yfir sjö þúsund Íslendingum.

Nærri 100.000 börn í Búrkína Fasó eiga á hættu að þjást af völdum alvarlegrar vannæringar, en UNICEF styður 52 næringarmiðstöðvar vítt og breitt um landið þar sem vannærð börn fá meðhöndlun.

Í tilkynningu frá UNICEF er haft eftir Sylvana Nzirorera, sem er yfirmaður samtakanna, að neyðaraðgerðir UNICEF á svæðinu skipti sköpum. „Neyðin er gríðarleg og hér í Búrkina Fasó sé ég hversu miklu máli hvert framlag getur skipt,“ segir hún.

„Starfsfólk UNICEF vinnur nótt sem nýtan dag að því að mæta sívaxandi neyð barna á Sahel-svæðinu. En allt okkar starf byggist á frjálsum framlögum. Þess vegna skiptir hinn mikli stuðningur frá almenningi á Íslandi svo miklu máli. Ég get fullvissað fólk á Íslandi um að framlögin munu koma að gagni og nýtast vel,“ segir hún enn fremur. Enn er hægt að leggja málefninu lið.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×