Innlent

Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils raunhæfur kostur

Manuel Hinds
Manuel Hinds
Manuel Hinds, fyrrum fjármálaráðherra El Salvador, hvetur Íslendinga til að skoða þann valkost að taka einhliða upp alþjóðlegan gjaldmiðil. El Salvador tók einhliða upp Bandaríkjadal fyrir áratug síðan og segir Hinds, sem veitti þarlendum stjórnvöldum ráð.

Einhliða upptaka erlends gjaldmiðils er raunhæfur kostur fyrir Ísland og hefur ýmsa kosti í för með sér. Þetta segir Manuel Hinds, fyrrum fjármálaráðherra El Salvador, en hann var meðal ræðumanna á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í Hörpu í gær þar sem rætt var um einhliða upptöku erlends gjaldmiðils. Hinds var helsti ráðgjafi forseta El Salvador þegar landið tók Bandaríkjadal upp einhliða um síðustu aldamót.

Í erindi sínu fjallaði Hinds um reynslu El Salvador af einhliða upptöku og vísaði einnig til svipaðrar reynslu Panama og Ekvador. Sagði hann að í öllum tilfellum hefði stöðugleiki aukist.

Hinds benti á að lítill gjaldmiðill á borð við krónuna hefði marga ókosti. Hann væri viðskiptahindrun sem kæmi í veg fyrir að Ísland fullnýtti tækifæri sín í alþjóðaviðskiptum. Þá væru vextir mun hærri en ella sem fæli í sér gríðarlegan kostnað fyrir þjóðina.

Hinds stillti einhliða upptöku erlends gjaldmiðils upp sem valkosti sem Ísland ætti að skoða. Vildu Íslendingar fara þá leið lægi beinast við að líta til Bandaríkjadals. Spurður um evruna sagði Hinds hana einnig koma til greina en galt varhug við því sem fylgdi Evrópusambandsaðild. Þá væri Evrópski seðlabankinn líklegur til að reyna að koma í veg fyrir einhliða upptöku evru en sá bandaríski kæmi líklega ekki í veg fyrir einhliða upptöku Bandaríkjadals.

Loks sagði Hinds það misskilning að einhliða upptaka væri gríðarlega kostnaðarsöm. Ekki þyrfti að skipta út öllum krónum í hagkerfinu heldur einungis svokölluðu grunnfé Seðlabankans sem er samtala seðla og mynta í umferð og innistæðna innlánsstofnana í Seðlabankanum. Væri því um að ræða einskiptiskostnað upp á rúmlega 70 milljarða króna miðað við stærð grunnfjár Seðlabanks í janúar.

Í pallborði með Hinds voru Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, og Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Íslandsbanka.

Þórarinn lýsti þeirri skoðun sinni að vissulega mælti margt með því að Ísland tæki upp alþjóðlegan gjaldmiðil en benti á að slíkri aðgerð fylgdu einnig ókostir. Þá gæti einhliða upptaka verið varasöm og bætti við að því lægi evran beinast við.

Heiðar hvatti til upptöku Kanadadollars en tók þó fram að val á alþjóðlegri mynt væri ekki helsta áhyggjuefnið. Núverandi ástand krónunnar í þröngum gjaldeyrishöftum með mjög skuldsettan ríkissjóð væri stærsti vandinn og úr honum þyrfti að leysa án tafar ætti ekki að fara illa. Einhliða upptaka Kanadadollars væri leið til þess.

Ingólfur sagði reynslu annarra ríkja af einhliða upptöku sýna að slíkri aðgerð fylgdu bæði kostir og gallar. Krónan hefði hins vegar ekki reynst stöðugur gjaldmiðill og ýmislegt benti til þess að einhliða upptaka gæti hentað Íslandi.

magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×