Innlent

Mæla gegn aðskilnaði á bankastarfsemi

Samstaða er um það á Alþingi að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingarbankastarfsemi.
Samstaða er um það á Alþingi að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingarbankastarfsemi.
Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi á Íslandi myndi fela í sér umtalsverðan kostnað fyrir lántakendur og fjármagnseigendur. Þetta er mat greiningardeildar Arion banka sem gefið hefur út skýrslu um þá hugmynd að aðskilja viðskipta- og fjárfestingabanka.

Fréttablaðið greindi frá því 19. mars síðastliðinn að full samstaða hefði skapast um það á Alþingi að aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi með lögum. Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögu um slíka aðgerð segir að innlán viðskiptabanka, sem hafa bakábyrgð frá ríkinu, hafi í aðdraganda bankahrunsins verið notuð í glæfralegar og jafnvel óarðbærar fjárfestingar, meðal annars í fyrirtækjum nátengdum viðkomandi fjármálastofnunum. Vegna þeirrar sérstöku tryggingar sem innlán njóti sé rík ástæða til að aðskilja hefðbundna bankastarfsemi frá áhættusækinni fjárfestingarstarfsemi.

Svipuð umræða hefur átt sér í stað í flestum nágrannaríkjum Íslands en skýrsluhöfundar benda á að stærð íslenska bankakerfisins skeri sig ekki lengur úr í alþjóðlegum samanburði auk þess sem fjárfestingabankastarfsemi íslensku bankanna sé afar lítil. Því sé vandséð að aðskilnaður sé aðkallandi eins og sakir standa þótt innlendur fjármálamarkaður geti vissulega breyst.

Skýrsluhöfundar leggja því til að vilji stjórnvöld gera bankastarfsemi öruggari sé skynsamlegra að hækka lágmarkseiginfjárkröfur íslenskra banka, horfa í auknum mæli á gæði eiginfjár og lausafjárstöðu bankanna og setja reglur um hámarksvogun. Þá mætti skoða að takmarka erlenda starfsemi sem og eigin fjárfestingar banka.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×