Innlent

Grunaðir um að hafa smyglað hingað áður

Fyrstu tvær ferðatöskurnar sluppu fram hjá hinum árvökula Nelson í mannmergðinni á sunnudag, en hann þefaði þá þriðju uppi og það dugði til.
Fyrstu tvær ferðatöskurnar sluppu fram hjá hinum árvökula Nelson í mannmergðinni á sunnudag, en hann þefaði þá þriðju uppi og það dugði til. Fréttablaðið/anton
Hundurinn Nelson kom upp um smygl á um tíu kílóum af amfetamíni frá Póllandi. Einn mesti fíkniefnafundur í Leifsstöð í langan tíma. Fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Mennirnir eru taldir hafa smyglað hingað fíkniefnum áður.

Lögreglan handtók fjóra menn að morgni sunnudags eftir að mikið magn fíkniefna fannst í farangri í Leifsstöð. Fjórmenningarnir voru í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins lítur lögreglan svo á að hún hafi með þessu farið langt með að uppræta nokkuð umfangsmikla smyglstarfsemi sem hafi staðið um nokkurt skeið. Þetta sé með öðrum orðum ekki í fyrsta sinn sem mennirnir hafi flutt fíkniefni til landsins.

Mennirnir eru allir pólskir. Þrír þeirra komu til Íslands á sunnudagsmorgun með flugi Iceland Express frá Varsjá í Póllandi. Tveir þeirra fóru í gegnum tollinn athugasemdalaust og héldu af stað til Reykjavíkur.

Hinn þaulreyndi fíkniefnahundur Nelson fann hins vegar lykt af farangri þess þriðja og var hann þegar í stað tekinn höndum. Við leit fannst á fjórða kíló af amfetamíni, sem hafði verið pakkað rækilega inn í umbúðir, meðal annars sjampóbrúsa.

Tollverði og lögreglumenn í Leifsstöð grunaði strax að maðurinn hefði ekki verið einn á ferð og grennsluðust fyrir um ferðafélaga hans. Það leiddi þá á spor tvímenninganna, sem þá sátu í leigubíl á Reykjanesbraut. Bíllinn var stöðvaður í Kópavogi og leitað í farangri mannanna. Í ljós kom að báðir höfðu þeir í fórum sínum sams konar pakkningar og sá sem tekinn hafði verið í Leifsstöð.

Ekki er komin endanleg niðurstaða um heildarmagn efnanna, en talið er að þau vegi um eða yfir tíu kíló. Það er einn mesti fíkniefnafundur í Leifsstöð í langan tíma.

Í kjölfarið var fjórði maðurinn handtekinn. Sá er einnig pólskur en ólíkt hinum er hann búsettur hérlendis.

Mennirnir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald, þremenningarnir til 30. apríl en sá fjórði til 23. apríl.

Rannsókn lögreglu beinist nú meðal annars að því hversu oft mennirnir hafa komið hingað áður, hvað þeir hafi þá haft fyrir stafni og hvort þeir eigi sér fleiri vitorðsmenn hér.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×